Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1266, 116. löggjafarþing 210. mál: aðgerðir gegn peningaþvætti.
Lög nr. 80 18. maí 1993.

Lög um aðgerðir gegn peningaþvætti.


I. KAFLI
Gildissvið o.fl.

1. gr.

     Lög þessi gilda um fyrirtæki og stofnanir sem veita almenningi fjármálaþjónustu, hér eftir nefndar fjármálastofnanir. Þær eru samkvæmt lögum þessum:
  1. Viðskiptabankar, sparisjóðir og dótturfélög þeirra.
  2. Stofnanir samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir.
  3. Líftryggingafélög og séreignalífeyrissjóðir.
  4. Verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóðir.
  5. Hérlend útibú erlendra fjármálastofnana sem hafa með höndum starfsemi skv. 1.–4. tölul.

     Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að ákvæði 7. og 8. gr. laganna gildi einnig um aðra aðila sem hafa með höndum starfsemi sem líklegt er að notuð verði til að þvætta peninga.

2. gr.

     Fjármálastofnun skal ekki í starfsemi sinni taka þátt í að varðveita, yfirfæra eða hagnýta eign eða breyta henni úr einu eignarformi í annað þegar vitneskja eða rökstuddur grunur er til staðar um að rekja megi uppruna eignar til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.

II. KAFLI
Hlutverk fjármálastofnana.

3. gr.

     Við upphaf viðskiptasambands skal starfsmaður fjármálastofnunar krefjast þess af viðskiptamanni að hann sanni á sér deili með framvísun persónuskilríkja.
     Einnig skal krefjast þess að viðskiptamaður, sem ekki er í föstu viðskiptasambandi skv. 1. mgr., framvísi persónuskilríkjum þegar hann á í viðskiptum með hærri fjárhæð en 1.100.000 kr. Ef fjárhæðin er ekki þekkt á þeim tíma er viðskiptin eiga sér stað eða viðskiptin fara fram í einni eða fleiri aðgerðum sem virðast tengjast hver annarri skal krefjast framvísunar persónuskilríkja um leið og vitneskja fæst um fjárhæðina og ljóst er að hún er hærri en að framan greinir.
     Ef grunur leikur á að rekja megi uppruna eignar til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni skal krefjast þess af viðskiptamanni að hann framvísi persónuskilríkjum þótt um sé að ræða viðskipti með lægri fjárhæð en skv. 2. mgr.

4. gr.

     Þegar viðskiptaaðili er fjármálastofnun sem starfar innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf ekki að krefjast persónuskilríkja skv. 3. gr. Það sama gildir þegar staðfest er að greiðsla fyrir viðskiptin verði færð til skuldar á viðskiptareikningi í nafni viðskiptaaðila í sambærilegri stofnun sem starfar innan Evrópska efnahagssvæðisins nema grunur leiki á að viðskiptin tengist broti á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.

5. gr.

     Hafi starfsmaður fjármálastofnunar vitneskju eða ástæðu til að ætla að tiltekin viðskipti fari fram í þágu þriðja manns skal viðskiptamaður krafinn upplýsinga um hver sá þriðji maður er.

6. gr.

     Fjármálastofnun skal varðveita ljósrit af persónuskilríkjum þeim sem krafist er skv. 3. gr. eða fullnægjandi upplýsingar úr þeim í a.m.k. fimm ár frá því að viðskiptum eða viðskiptasambandi lýkur.

7. gr.

     Fjármálastofnun skal láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni og tilkynna ríkissaksóknara um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi. Samkvæmt beiðni ríkissaksóknara eða lögreglu, sem rannsakar peningaþvættismál, skal láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna rannsóknarinnar.
     Forðast skal viðskipti þegar fyrir hendi er vitneskja eða grunur um að rekja megi þau til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni þar til ríkissaksóknara hefur verið tilkynnt um viðskiptin. Ef ekki er unnt að koma í veg fyrir viðskiptin eða stöðvun þeirra gæti hindrað lögsókn á hendur þeim sem hafa hagnað af viðskiptunum skal ríkissaksóknara tilkynnt um viðskiptin um leið og þau hafa farið fram.

8. gr.

     Stjórnendur, starfsmenn og aðrir, sem vinna í þágu fjármálastofnunar, eru skyldir til að sjá til þess að viðskiptamaður eða annar utanaðkomandi aðili fái ekki frá stofnuninni vitneskju um að ríkissaksóknara hafi verið sendar upplýsingar skv. 7. gr. eða að rannsókn sé hafin vegna gruns um brot á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.

9. gr.

     Fjármálastofnun skal hafa innra eftirlit sem miðar að því að hindra að stofnunin sé notuð til viðskipta sem tengjast afbrotum. Í þeim tilgangi skal stofnunin m.a. sjá til þess að starfsmenn hljóti sérstaka þjálfun.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.

10. gr.

     Fái bankaeftirlit Seðlabanka Íslands eða Tryggingaeftirlit í störfum sínum vitneskju um viðskipti sem tengjast broti á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni eða upplýsingar um viðskipti sem grunur leikur á að tengist broti á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni skal það tilkynnt til ríkissaksóknara.

11. gr.

     Þegar stjórnandi eða starfsmaður fjármálastofnunar veitir ríkissaksóknara eða lögreglu upplýsingar í góðri trú samkvæmt lögum þessum telst það ekki brot á þagnarskyldu sem hann er bundinn samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík upplýsingagjöf leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð á herðar hlutaðeigandi stofnunum, stjórnendum þeirra eða starfsmönnum.

12. gr.

     Fjárhæð skv. 2. mgr. 3. gr. skal bundin gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU. Seðlabanki Íslands auglýsir fjárhæðina í Lögbirtingablaði, miðað við 1. janúar ár hvert.

13. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

14. gr.

     Brot á ákvæðum 3., 5., 6., 7., 8. og 9. gr. varða sektum. Vanræksla á að láta ríkissaksóknara eða lögreglu í té upplýsingar skv. 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. varðar einnig sektum.
     Þegar brot er framið í starfsemi lögaðila má gera lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt.

15. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Ákvæði 9. gr. öðlast gildi sex mánuðum síðar.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.